Verkefnið Betra líf með ADHD fær veglegan styrk.

Svandís Svavarsdóttir og Hrannar Björn Arnarsson.
Svandís Svavarsdóttir og Hrannar Björn Arnarsson.

Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur úthluta ADHD samtökunum veglegan styrk, samtals 7 milljónir króna, til að þróa og elfa fjölbreytt námskeiðahald samtakanna fyrir fólk með ADHD. Verkefnið, sem ber yfirskriftina Betra líf með ADHD mun tryggja að fyrir lok ársins munu samtökin geta boðið uppá amk 7 mismunandi námskeið fyrir og um fólk með ADHD.

Nú þegar bjóða samtökin uppá námskeið fyrir ungmenni með ADHD, fullorðna með ADHD og aðstandendur barna með ADHD en vegna styrksins, munu auk þeirra námskeiða bætast við á árinu námskeið fyrir konur með ADHD, kennara, leiðbeinendur og íþróttaþjálfara sem vinna með börnum með ADHD auk annarra stuðningúrræða fyrir fólk með ADHD. 

Styrkurinn til ADHD samtakanna var einn af fjölmörgum öðrum styrkjum sem heilbrigðisráðherra veitti til félagasamtaka við hátíðlega athöfn, en samtals úthlutaði ráðherra um 95 milljónum við þetta tilefni - sjá meðfylgjandi frétt.

ADHD samtökin þakka af heilum hug fyrir þetta myndarlega framlag og hafa þegar hafist handa við uppbyggingu námskeiðanna.