Opið bréf til ráðherra og alþingismanna vegna tillagna ADHD samtakanna til breytinga á undanþáguákvæðum 8. og 9. mgr. 101. gr. umfl. nr. 77/2019

Ágætu ráðherrar og alþingismenn

 

Á undanförnum árum, nánar tiltekið síðan ný umferðarlög nr. 77/2019 voru samþykkt og tóku gildi í upphafi árs 2020, hefur ítrekað komið fyrir að fólk með ADHD sem notar ADHD lyf hefur orðið fyrir óþægindum og jafnvel verið dæmt eða beitt viðurlögum fyrir ólöglegan akstur undir áhrifum lyfjanna, þrátt fyrir að þau séu tekin samkvæmt læknisráði. Ástæður þessa má rekja til ófullnægjandi og gallaðs orðalags undanþáguákvæðis, sbr. 8. og 9. mgr. 101. gr. umfl. nr. 77/2019 sem heimilar undanþágu frá viðurlögum vegna aksturs undir áhrifum lyfja, sem annars eru bönnuð á íslensku forráðasvæði, sbr. viðauki 1 í reglugerð nr. 233/2001. Ökumaður þarf að uppfylla öll þau skilyrði samkvæmt ákvæðinu svo undanþágan eigi við.

 

Eitt af skilyrðum er að ökumaður hafi læknisvottorð meðferðis við stjórn ökutækis, þar sem fram kemur að hann þurfi að neyta þeirra lyfja sem í blóði hans mælast og sé þrátt fyrir það fær um að stjórna ökutæki örugglega. Ef efni eða lyf mælast í blóði ökumanns sem ekki hefur á sér fyrrnefnt læknisvottorð, en uppfyllir að öðru leyti öll önnur skilyrði, er hann talinn sekur um akstur undir áhrifum bannaðra efna í blóði. Í kæruferli hefur jafnframt borið við að lögreglan neiti alfarið að taka við slíku læknisvottorði eða öðrum gögnum sem staðfesta lyfjameðferð viðkomandi. Þetta ófremdarástand hefur nú varað í hálft fjórða ár. Ástandið er með öllu óásættanlegt og nauðsynlegt að löggjafinn taki þetta til endurskoðunar tafarlaust.

 

ADHD samtökin hafa á liðnum árum leitað leiða til að bregðast við ástandinu, enda hafa fjölmörg mál ratað á borð samtakanna þessu tengt. Ítarleg fyrirspurn til Ríkislögreglustjóra var loks svarað eftir 10 mánuði, með fyrirslætti af ýmsu tagi og tilvitnun í dómafordæmi sem hverjum má ljóst vera að tengjast málum þar sem klárlega var um misnotkun á fíkniefnum og/eða lyfjum að ræða. Umfangsmikil rannsóknarvinna á íslenskum lögum, dómum og lagaumhverfinu í nágrannalöndum okkar, hefur leitt okkur að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt er að breyta núgildandi umferðarlögum, setja reglugerð á grundvelli þeirra, sbr. 6. mgr. 48. gr. umfl. nr. 77/2019, breyta verklagi lögreglunnar sem og setja skýra verkferla þar að lútandi með formlegum hætti hvað varðar fólk sem notar lyf vegna ADHD samkvæmt læknisráði.

 

ADHD samtökin hafa látið vinna formlegar tillögur um alla þessa þætti sem fylgja hér með.

 

Um leið og við hvetjum stjórnvöld til að grípa til aðgerða án tafar, lýsum við því yfir að ADHD samtökin eru boðin og búin til hverskyns samráðs og samstarfs um framvindu málsins. Núverandi ástand er ólíðandi og við því verður að bregðast án tafar!

Afrit sent til: Innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannesson, Dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir og Alþingismanna

 

        Vilhjálmur Hjálmarsson

        Formaður / Chairman