Skráning er hafin á vornámskeið ADHD samtakanna 2021

Skráning er hafin á vornámskeið ADHD samtakanna 2021
Skráning er hafin á vornámskeið ADHD samtakanna 2021

Skráning er hafin á öll helstu námskeið ADHD samtakanna á vorönn 2021. Um er að ræða sex námskeið, en fimm af þeim námskeiðum hafa verið haldin með einum eða öðrum hætti á liðnum árum og hafa hlotið mikið lof meðal þátttakenda. ADHD samtökin bjóða nú upp á nýjung, nýtt námskeið fer af stað sem ber heitið TÍA. Það er hnitmiðað og fjölbreytt námskeið um ADHD í tveim hlutum fyrir fagfólk sem starfar við íþrótta- og tómstundastarf og aðra aðila sem koma að skipulögðu starfi krakka með ADHD. Námskeiðin verða haldin í sal ADHD samtakanna að Háaleitisbraut 13, 4. hæð. Nánar má fræðast um námskeiðin hér fyrir neðan.

Félagsmenn ADHD samtakanna njóta sérstakra afsláttarkjara á öllum námskeiðunum, en fjöldi þátttakenda er takmarkaður - fystur kemur fyrstur fær. Hægt er að skrá sig í ADHD samtökin hér.

Áfram stelpur! Fræðslu og sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir konur með ADHD.

Áfram stelpur! er fræðslu- og sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir konur með ADHD. Námskeiðinu er ætlað að veita fræðslu um ADHD einkenni kvenna, algengar fylgiraskanir þeirra og ólíkar birtingarmyndir röskunarinnar. Áhersla er lögð á þau hugrænu ferli sem liggja að baki algengum áskorunum sem konur með ADHD mæta í daglegu lífi, hvort sem er í námi, starfi, heimilislífi, félagslegum samskiptum eða uppeldi. Markmið námskeiðsins er að styrkja konur með ADHD í markmiðasetningu, áætlanagerð og skipulagi með það fyrir augum að draga úr streitu og vanmáttarkennd, fræða konur um ýmis verkfæri sem nýst geta í þessum tilgangi og veita þjálfun í notkun þeirra í gegnum samtöl og verkefnavinnu.

Námskeiðið stendur í 10 klukkustundir - fjögur skipti, 2.5 klukkukstundir í senn og það hefst þriðjudaginn 19. janúar og lýkur 29. janúar 

Innifalið í námskeiðsgjaldi er bók Dr. Ara Tuckman, "Leyndardómar heilans - Láttu verkin tala" sem kostar kr. 5.900,- ein og sér.

Skráningarform og ítarlegri upplýsingar má finna hér.

Fræðslunámskeið fyrir aðstandendur 6-12 ára barna með ADHD

Á námskeiðinu er lögð áhersla á að þátttakendur öðlist góðan skilning á hvað er ADHD og fái einföld og hagnýt ráð við uppeldi barna með ADHD. Námskeiðið hentar því vel fyrir alla nána aðstandendur barna með ADHD, mömmur, pabba, fósturforeldra, stjúpforeldra, ömmur, afa og aðra nána. Það er mikill kostur ef allir nánustu aðstandendur geta tekið þátt.

Námskeiðið verður haldið í Reykjavík, laugardagana 23. og 30. janúar 2021, frá kl. 10-15 en boðið verður uppá fjarfundarbúnað fyrir þá sem ekki geta mætt á staðinn. Skráningarform og ítarlegri upplýsingar má finna hér.

Ég get! Námskeið fyrir 14-16 ára unglinga með ADHD - aðeins 12 þátttakendur - hægt að greiða með frístundastyrk.

Ég get! er skemmtilegt og fræðandi sjálfstyrkingarnámskeið fyrir 14-16 ára unglinga með ADHD (8.-10. Bekkur). Námskeiðið samanstendur af fræðslu, umræðum og léttum verkefnum og hvatt er til virkrar þátttöku unglinganna.

Almenn fræðsla um ADHD er mikilvægur þáttur í að unglingarnir öðlist skilning á sjálfum sér og þeim áskorunum sem verða á vegi þeirra í daglegu lífi og sætti sig við greininguna.

Meiri áhersla er þó lögð á að efla sjálfsmynd unglinganna með því að draga fram þá styrkleika sem þeir búa yfir og benda þeim á leiðir til að nýta styrkleikana sína til að vinna með erfiðleikana.

Námskeiðið er haldið í Reykjavík, það er 20 klukkustundir og stendur í 10 vikur, hefst 1. febrúar - 29. mars 2021. Skráningarform og ítarlegri upplýsingar má finna hér.

TÍA - tómstundir, íþróttir og ADHD

Nýtt! Hnitmiðað og fjölbreytt námskeið um ADHD í tveim hlutum fyrir fagfólk sem starfar við íþrótta- og tómstundastarf aðra aðila sem koma að skipulögðu starfi krakka með ADHD.

Námskeiðið er í höndum reynslumikilla fagaðila á sviðinu. Það eru þau Jakob Frímann Þorsteinsson, MA í náms- og kennslufræðum, Vanda Sigurgeirsdóttir MA í uppeldis- og menntunarfræði og Bóas Valdórsson klínískur sálfræðingur sem hafa veg og vanda að námskeiðinu. Vanda og Jakob starfa við HÍ og hjá KVAN og Bóas starfar sem sálfræðingur við MH.

Á námskeiðinu fá þátttakendur hagnýt verkfæri, þjálfast í að nota þau, fræðslu um ADHD og gagnleg ráð. Unnið með reynslumiðuðum hætti með fyrri reynslu þátttakenda og efni námskeiðsins. Á milli þessara tveggja skipta þurfa þátttakendur að gera ráð fyrir tíma til að vinna með efnið í eigin starfi eða þjálfun. Farið er yfir mikilvæga þætti í öllu hópastarfi þar sem einkenni hópaþróunar er tekin fyrir og farið í hvernig stjórnandi hópsins getur nýtt þá krafta sem búa í hverjum hóp með jákvæðum hætti. Rætt er um heppilega og gagnlega samskiptahætti, markmiðasetningu og mikilvægi þess að leiðbeinendur virkji þátttakendur á jákvæðan og eflandi hátt.

Námskeiðið er kennt í tveimur lotum þann 3. mars og 23. mars 2021, 3 klst. í senn. Á milli lota æfa þátttakendur sig í að beita aðferðum námskeiðsins.

Skráningarform og ítarlegri upplýsingar má finna hér.

Taktu stjórnina - fræðslunámskeið fyrir fullorðna með ADHD 

Markmið námskeiðsins er að veita fullorðnum með ADHD helstu upplýsingar um einkenni ADHD og ólíkar birtingarmyndir röskunarinnar. Styrkja einstaklingana í að skipuleggja líf sitt, ná utan um það sem kannski áður hefur farið forgörðum, vinna á streitu og kvíða með upplýsingum, samtölum og æfingum. Veita þátttakendum ákveðin tæki til að líða betur með ADHD í sínu lífi. Setja sér skynsamleg markmið og raunhæfar kröfur. Afraksturinn er betri einstaklingur, huganlega betra og ánægðara foreldri, maki, starfsmaður og borgari.

Námskeiðið stendur í 10 klukkustundir - fjögur skipti, 2.5 klukkukstundir í senn og það hefst þriðjudaginn 6. apríl - 15. apríl. 

Innifalið í námskeiðsgjaldi er bók Dr. Ara Tuckman, "Leyndardómar heilans - Láttu verkin tala" sem kostar kr. 5.900,- ein og sér.

Skráningarform og ítarlegri upplýsingar má finna hér.

Fræðslunámskeið fyrir aðstandendur 13-18 ára unglinga með ADHD

Á námskeiðinu er lögð áhersla á að þátttakendur öðlist góðan skilning á hvað er ADHD og fái einföld og hagnýt ráð við uppeldi unglinga með ADHD. Námskeiðið hentar því vel fyrir alla nána aðstandendur unglinga með ADHD, mömmur, pabba, fósturforeldra, stjúpforeldra, ömmur, afa og aðra nána. Það er mikill kostur ef allir nánustu aðstandendur geta tekið þátt.

Námskeiðið verður haldið í Reykjavík, laugardagana 10. og 17. apríl 2021, frá kl. 10-14 en boðið verður uppá fjarfundarbúnað fyrir þá sem ekki geta mætt á staðinn. Skráningarform og ítarlegri upplýsingar má finna hér.

Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu samtakanna  í síma 5881110 eða í vefpósti adhd@adhd.is