Staðnám/fjarnám: Fræðslunámskeið fyrir foreldra barna 13-18 ára með ADHD

SKRÁNING STENDUR YFIR á hið sívinsæla fræðslunámskeið fyrir aðstandendur 13-18 ára barna með ADHD sem haldið verður í húsnæði ADHD samtakanna, Háaleitisbraut 13 í Reykjavík laugardagana 17. apríl og 24. apríl 2021 (sjá skipulag hér fyrir neðan). Á námskeiðinu er lögð áhersla á að þátttakendur öðlist góðan skilning á hvað ADHD er og fái einföld og hagnýt ráð við uppeldi unglinga með ADHD. Námskeiðið hentar því vel fyrir alla nána aðstandendur unglinga með ADHD, mömmur, pabba, fósturforeldra, stjúpforeldra, ömmur, afa og aðra nána. Það er mikill kostur ef nánir aðstandendur geta tekið þátt í námskeiðinu. Þannig verður fjölskylduheildin enn sterkari. Námskeiðið verður haldið í húsakynnum ADHD samtakanna að Háaleitisbraut 13, 4. hæð báða dagana. Hægt verður einnig að taka þátt í námskeiðinu í gegnum fjarfundarbúnar og er stofnaður lokaður hópur á Facebook í því tilliti. Því er því ekkert til fyrirstöðu að taka þá hvar á landinu sem þú býrð.

Samskipti foreldra og barna með ADHD - Spjallfundur í Reykjavík

ADHD samtökin bjóða upp á opinn spjallfund um samskipti foreldra og barna með ADHD miðvikudaginn 3. mars nk. kl. 20:30. Fundurinn verður haldinn í fundarsal ADHD samtakanna að Háaleitisbraut 13, 4.hæð og er ætlaður foreldrum/forráðamönnum barna og öðrum aðstandendum fólks með ADHD og öllu öðru áhugafólki um uppbyggileg og gagnleg samskipti i uppeldi barna. Sólveig Ásgrímsdóttir sálfræðingur hefur veg og vanda að spjallfundinum og mun hún koma víða við. Í þessum fyrirlestri mun Sólveig meðal annars koma inn á óhlýðnikeðjuna, um samstöðu foreldra, umbunarkerfi, uppbyggileg samtöl og samskipti, hvernig við getum dregið fram góða hegðun og mikið meira. Sólveig hefur lengi starfað innan málaflokksins en hún starfaði fyrst sem skólasálfræðingur og síðar sálfræðingur á BUGL og tók þátt í að byggja upp þjónustu við börn með ADHD þar. Tók síðar við starfi forstöðumanns og sálfræðings á Stuðlum en þangað komu margir unglingar með ADHD. Sólveig hefur lengi sinnt fræðslu á vegum ADHD samtakanna og situr nú í stjórn þeirra. Við mælum með þessum opna fyrirlestri, það er aldrei að vita nema að þú fáir góðar uppeldishugmyndir í kjölfarið!