27.01.2016
ADHD samtökin minna á spjallfund í kvöld, miðvikudag 27. janúar, fyrir foreldra og forráðamenn. Yfirskrift fundarins er "svefnvandi barna og morgunrútína". Elín H. Hinriksdóttir, sérkennari og formaður ADHD leiðir fundinn. Fundurinn verður að Háaleitisbraut 13 - 4.hæð og hefst klukkan 20:30. Allir velkomnir í kaffi og notalega stund án endurgjalds.
26.01.2016
„Lyfin eru aðalmeðferðin við ADHD og mjög stór hluti þeirra sem taka þau fá af þeim hjálp. Það hefur ekki verið sýnt fram á að eingöngu markþjálfun eða sálfræðimeðferð gefi marktækan árangur.“ Þetta sagði Þórgunnur Ársælsdóttir, formaður Geðlæknafélags Íslands meðal annars í viðtali við Spegilinn á RÁS 1. Spegillinn hefur að undanförnu fjallað ítarlega um áform heilbrigðisráðherra þess efnis að draga úr notkun ADHD-lyfja.
20.01.2016
„Ég var eiginlega búinn að gefast upp á því hvernig mér leið. Að geta aldrei sest niður og einbeitt mér að einum einasta hlut, að geta stundum ekki hlustað á börnin mín eða konuna mína,“ segir Stefán Karl Stefánsson leikari í samtali við RÚV. Hann upplýsti á Facebook-síðu sinni í gærkvöld að hann hefði notað lyf við ADHD frá því snemma á síðasta ári. Hann tengdi við frétt Spegilsins þar sem fram kom að Íslendingar ættu heimsmet í notkun lyfja gegn athyglisbresti og ofvirkni. Stefán Karl segir alltaf jafn fyndið að lesa svona greinar frá hinum yfirborðslega heimi „um að við, sem loksins erum komin á lyfin sem þið viljið að við tökum, séum nú farin að misnota þau líka.“
19.01.2016
Fyrsti spjallfundur ársins 2016 verður í fundarsal ADHD annað kvöld, miðvikudag 20. janúar klukkan 20:30. Fundurinn er fyrir fullorðna með ADHD og verður umfjöllunarefnið Styrkleikar ADHD. Fundurinn verður að Háaleitisbraut 13 - 4. hæð og hefst klukkan 20:30. Ásta Sóley Sigurðardóttir leiðir fundinn. Allir velkomnir í kaffi og notalega stund án endurgjalds.
18.01.2016
Dr. Drífa Björk Guðmundsdóttir sálfræðingur og ritari ADHD og Elín H. Hinriksdóttir sérkennari og formaður ADHD voru gestir Mannlega þáttarins á rás eitt í liðinni viku. Þar kynntu þær fræðslunámskeið og ráðgjöf fyrir fullorðna með ADHD, "Taktu stjórnina". Samtökin bjóða á ný upp á slík námskeið og stendur innritun nú yfir á námskeið sem hefst 1. febrúar.
11.01.2016
ADHD samtökin bjóða á ný upp á fræðslunámskeið og ráðgjöf fyrir fullorðna með ADHD. Námskeiðið nefnist "Taktu stjórnina" og stendur í 10 klukkustundir. Námskeiðið hefst mánudaginn 1. febrúar og lýkur mánudaginn 15. febrúar. Skráning er hafin á vef samtakanna en fjöldi þátttakenda er takmarkaður.
08.01.2016
Líkt og fyrri ár, bjóða ADHD samtökin upp á sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir unglinga. Námskeið fyrir stelpur í 8. til 10. bekk hefst laugardaginn 6. febrúar 2016 en foreldrakynning verður föstudaginn 5. febrúar. Námskeiðið er haldið í sal ADHD að Háaleitisbraut 13 í Reykjavík og er skráning hafin á vef ADHD.
04.01.2016
Björk Þórarinsdóttir, fyrrverandi gjaldkeri og formaður ADHD samtakanna verður jarðsungin frá Lindakirkju í dag. Skrifstofa ADHD verður lokuð af þeim sökum í dag.