Máttu ekki lækka greiðsluþátttöku í lyfjum vegna afslátta apóteka

Sjúkratryggingar Íslands hafa ákveðið að verða við tilmælum velferðarráðuneytisins og munu breyta framkvæmd við útreikninga á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði þegar lyfsali veitir afslátt af lyfjum. Útreikningurinn mun nú miðast við greiðsluþátttökuverð samkvæmt lyfjaverðskrá, án tillits til afsláttar sem lyfsali veitir. Umboðsmaður Alþingis sagði í áliti sínu 22. desember 2015 að ekki yrði séð að nein lagastoð væri fyrir framkvæmdinni, Sjúkratryggingum Íslands væri ekki heimilt að breyta greiðsluþátttökuverði, sem lyfjagreiðslunefnd hefði ákveðið, þegar lyfsali veitir afslátt af hlut sjúkratryggðs í smásöluverði. Nú rúmum þremur mánuðum eftir álit Umboðsmanns er framkvæmdinni loks breytt en málið hefur verið rekið allt frá því í mars 2014.

Útrásarteygjur - Bouncy Bands

ADHD samtökin hafa nú tekið í sölu"Útrásarteygjur" eða Bouncy Bands. Teygjurnar eru sérlega góðar fyrir einstaklinga með ADHD og þá sem glíma við fótaóeirð og hreyfiþörf. Tvær tegundir eru í boði, teygjur sem festar eru á borðfætur og teygjur sem festar eru á stólfætur. Almennt verð er kr. 2.500,- en félagsmenn ADHD fá 20% afslátt og greiða kr. 2.000,- fyrir stykkið.

Akureyri: GPS-strákar - Skráning hafin

ADHD samtökin bjóða í apríl og maí upp á GPS-námskeið á Akureyri, sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir drengi í 8. til 10.bekk, GPS sem stendur fyrir Gagnleg, persónuleg stjórntæki. Gert ráð fyrir 10 þátttakendum á hvert námskeið og er skráning hafin á vef ADHD.

Greiningarárátta og geðraskanir

"Skyldur stjórnvalda eru ótvíræðar á þessu sviði, skýrar leiðbeiningar, áætlun og stefnu skortir og sá langi biðtími sem einkennir þjónustuna er óviðunandi og líklegur til að hafa þungbærar og langvarandi afleiðingar. Ég skora á ráðherra að taka þessi skilaboð alvarlega og bregðast snöfurmannlega við", segir Gyða Haraldsdóttir, forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslunnar í grein á visir.is. Greinin ber yfirskriftina "Er ég með greiningaráráttu?" og er þar vitnað til ummæla ráðamanna um meintar ónauðsynlegar greiningar fagaðila vegna þroska-, geð- og lyndisraskana barna og biðísta sem börn mega sæta.

Spjallfundur fyrir foreldra og forráðamenn í kvöld - ADHD og fylgiraskanir

ADHD samtökin bjóða upp á spjallfund í kvöld miðvikudaginn 16. mars kl. 20:30 fyrir foreldra barna og ungmenna með ADHD. Fundurinn verður í sal ADHD á 4.hæð að Háaleitisbraut 13. Yfirskrift fundarins er ADHD og fylgiraskanir og leiðir Drífa Björk Guðmundsdóttir fundinn. Allir velkomnir, heitt á könnunni og kósý stemmning sem kostar ekkert. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Aðalfundur ADHD samtakanna er í kvöld

Aðalfundur ADHD samtakanna árið 2016 verður haldinn í húsnæði samtakanna, Háaleitisbraut 11-13, í kvöld mánudaginn 14. mars 2016 klukkan 20:00. Meðal venjulegra aðalfundarstarfa er kosning stjórnar samtakanna fram að aðalfundi 2017. Stjórn samtakanna er skipuð sjö mönnum og tveimur til vara. Formann, varaformann, gjaldkera og ritara skal kjósa sérstaklega.

Fræðslufyrirlestur: ADHD og fjármál

ADHD samtökin bjóða upp á fræðslufyrirlestur um ADHD og fjármál, mánudaginn 4. apríl. Haukur Hilmarsson, ráðgjafi fjallar um fjármálahegðun, með sérstöku tilliti til einstaklinga með ADHD, leiðir og lausnir. Fyrirlesturinn verður í Háskólanum í Reykjavík, sal V102 og hefst klukkan 20:00.

Spjallfundur fyrir fullorðna í kvöld - Félagsleg samskipti

ADHD samtökin bjóða upp á spjallfund í kvöld miðvikudaginn 9. mars kl. 20:30 fyrir fulloðna með ADHD að Háaleitisbraut 13. Drífa Pálín Geirsdóttir leiðir fundinn en yfirskrift hans er félagsleg samskipti. Allir velkomnir, heitt á könnunni og kósý stemmning sem kostar ekkert. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Aðalfundur ADHD 2016

Aðalfundur ADHD samtakanna árið 2016 verður haldinn í húsnæði samtakanna, Háaleitisbraut 13, mánudaginn 14. mars n.k. klukkan 20:00. Meðal venjulegra aðalfundarstarfa er kosning stjórnar en nú háttar svo til að kjósa þarf í sjö sæti í aðal- og varastjórn. Öllum fullgildum félagsmönnum ADHD er heimilt að bjóða sig fram til setu í stjórn samtakanna.

GPS-námskeið fyrir stráka - Skráning hafin

ADHD samtökin bjóða upp á sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir stráka í 8. til 10. bekk. Námskeiðið hefst laugardaginn 12. mars 2016 en foreldrakynning verður fimmtudaginn 10. mars. Námskeiðið er haldið í sal ADHD að Háaleitisbraut 13 í Reykjavík og er skráning hafdin á vef ADHD.