Gleðileg jól

Stjórn og starfsfólk ADHD samtakanna óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og velfarnaðar á komandi ári, með þökk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða. Velunnurum eru færðar sérstakar þakkir fyrir hlýhug í garð samtakanna. Skrifstofa ADHD Samtakanna verður lokuð frá og með fimmtudegi 21. desember. Skrifstofan opnar að nýju þriðjudaginn 2. janúar 2018 kl. 13:00

Góði hirðirinn styrkir ADHD samtökin

Góði hirðirinn, nytjamarkaður Sorpu, afhenti ADHD samtökunum í dag, styrk að upphæð kr. 500.000. Styrkurinn er ætlaður til útgáfu fræðsluefnis um ADHD og konur og ADHD og samskipti systkina. ADHD samtökin voru ein 13 félagasamtaka sem fengu styrk í jólaúthlutun Góða hirðisins en alls var úthlutað styrkjum að upphæð tæpar sjö milljónir króna. Frá upphafi hefur Góði hirðirinn úthlutað 227 milljónum króna í styrki eða um 13 milljónum króna á ári að meðaltali. ADHD samtökin þakka af einlægni þann hlýhug sem starfsfólk Góða hirðisins og Sorpu sýna samtökunum.

Stjórn ÖBÍ lýsir vonbrigðum með fjárlagafrumvarpið

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands, á neyðarfundi sínum 18. desember 2017, lýsir gríðarlegum vonbrigðum með fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Skorað er á þingheim að standa við gefin loforð með því að gera strax mannsæmandi breytingar á framlögðu fjárlagafrumvarpi og leiðrétta kjör örorkulífeyrisþega: - Hækka þarf óskertan lífeyri almannatrygginga verulega - Afnema verður „krónu-á-móti-krónu“ skerðingu sérstakrar framfærsluuppbótar

Síðasti spjallfundur ársins í kvöld - Jólafundur

ADHD samtökin bjóða upp á spjallfund í kvöld, miðvikudaginn 6. desember 2017 kl. 20:30. Fundurinn verður í fundarsal að Háaleitisbraut 13 - I.hæð og er öllum opinn. Þetta er síðasti spjallfundurinn fyrir jól og verður yfirbragð hans með jólalegu sniði. Allir eru velkomnir, heitt á könnunni, kakó og smákökur og kósý stemmning sem kostar ekkert. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Jólakort ADHD til sölu

ADHD samtökin selja jólakort fyrir þessi jól líkt og áður. Tveir pakkar eru til sölu en öll kortin eru með myndum eftir Mæju - Maríu Sif Daníelsdóttur. Annars vegar eru sex kort í pakka með tveimur myndum, "Herramaður í jólabúningi" og "Eintóm gleði" og kostar pakkinn kr. 1.800,-. Hins vegar eldra kort ADHD, Jólagleði, ský, ást og friður". Tíu kort eru í pakka og kostar hann aðeins kr. 2.000,-

Spjallfundur í kvöld - ADHD og lyf

ADHD samtökin bjóða upp á spjallfund í kvöld, miðvikudaginn 15. nóvember 2017 kl. 20:30. Fundurinn verður í fundarsal að Háaleitisbraut 13 - IV.hæð og er ætlaður fullorðnum með ADHD. Yfirskrift fundarins er "ADHD og lyf" og eru umsjónarmenn Elín Hrefna Garðarsdóttir og Vilhjálmur Hjálmarsson. Allir eru velkomnir, heitt á könnunni og kósý stemmning sem kostar ekkert. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Fordómar ríkja gagnvart notkun lyfja við ADHD

Faðir tveggja barna með ADHD, sem sjálfur er með sömu greiningu, segir fordóma ríkja gagnvart lyfjanotkun sem veiti sannarlega betri lífsgæði. Aftur á móti verði að veita börnum ókeypis sálfræðiaðstoð meðfram lyfjagjöfinni, svo þau eflist félagslega.

Spjallfundur fyrir foreldra og forráðamenn: ADHD og lyf

ADHD samtökin bjóða upp á spjallfund í kvöld, miðvikudaginn 1. nóvember 2017 kl. 20:30. Fundurinn verður í fundarsal að Háaleitisbraut 13 - IV.hæð og er ætlaður foreldrum og forráðamönnum barna með ADHD. Yfirskrift fundarins er "ADHD og lyf" og eru umsjónarmenn Elín Hrefna Garðarsdóttir og Vilhjálmur Hjálmarsson. Allir eru velkomnir, heitt á könnunni og kósý stemmning sem kostar ekkert. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.

Ljósi varpað á stöðu ungmenna með ADHD

Málþing ADHD samtakanna, "Ferðalag í flughálku", fór fram í dag en það var liður í Alþjóðlegum ADHD vitundarmánuði. Markmiðið með málþinginu var að varpa ljósi á stöðu ungmenna með ADHD. Sólveig Ásgrímsdóttir, sálfræðingur segir mikilvægt að muna að hrósa, þar sem ungmenni með ADHD fái oft lítið annað en gagnrýni. Jóna Kristín Gunnarsdóttir, kennari við Borgarhólsskóla á Húsavík kynnti á málþinginu þróunarverkefni sem hún hefur unnið að frá árinu 2010 en það nefnist "Að beisla hugann" og er ætlað börnum og ungmennum með ADHD.

Sálfræðiþjónusta, vilji landsmanna og gjörðir stjórnmálaflokka

Sálfræðiþjónusta er líka heilbrigðisþjónusta að mati nær allra landsmanna. Yfir 90% svarenda í nýrri könnun Gallup, sem gerð var fyrir Öryrkjabandalag Íslands, telja að sálfræðiþjónusta og tannlækningar eigi að vera niðurgreidd fyrir alla Íslendinga með sama hætti og önnur heilbrigðisþjónusta eins og þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa og sérfræðilækna. Þetta tónar við undirskriftasöfnun sem ADHD samtökin stóðu fyrir, ásamt sjö öðrum hagsmunasamtökum. Rúmlega ellefu þúsund undirskriftir voru afhentar heilbrigðisráðherra í byrjun árs með kröfu um að fella sálfræðiþjónustu nú þegar undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands. Ekkert bólar þó á aðgerðum og þurfa einstaklingar enn að leggja út tugi þúsunda króna, þurfi þeir að leita sálfræðihjálpar. Þessu óréttlæti verður að breyta nú þegar.