Yfirlýsing frá ADHD samtökunum

Vegna birtingar á greininni „ Börn oft ranglega greind með ADHD“ á Mbl. is þann 8. ágúst sl. Þar sem vitnað er í Grétu Jónsdóttur teljum við sem forsvarsmenn ADHD samtakanna nauðsynlegt að koma á framfæri neðangreindri yfirlýsingu af hálfu samtakanna. Samtökin telja að greinin ali á fordómum og sé ekki til þess fallin að auka skilning á ADHD í samfélaginu né styðja við bakið á þeim einstaklingum sem röskunin hefur áhrif á. Er þar sterkt til orða kveðið og ekki til bóta fyrir einstaklinga með ADHD né í samræmi við alþjóða fræðasamfélagið og þá þekkingu á ADHD sem fyrirfinnst í dag. Sérfræðingar og fræðimenn á sviðum heilbrigðis- og félagsvísinda víðs vegar um heiminn hafa með fjölmörgum vísindalegum rannsóknum sýnt fram á að röskunin er raunveruleg og vissulega til staðar hjá fjölmörgum einstaklingum. Alþjóðleg tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála ICD-10 (International Classidfication of Diseaes-10 útgáfa) og greiningakerfi bandaríska geðlæknafélagsins DSM-IV-TR (Diagnostic and Statistical Manual og Mental Diseases-endurbætt útgáfa 4) skilgreina ADHD sem röskun á taugaþroska sem birtist í formi athyglisbrests, ofvirkni og hvatvísi. ADHD hefur áhrif á líf fjölmargra einstaklinga; barna, fullorðinna og fjölskylda þeirra. Talið er að um 7-10% barna glími við ADHD og 4,5% fullorðinna. Því má áætla að um 6.000 börn og 10.000 fullorðnir glími við ADHD á Íslandi. Einkenni ADHD hafa áhrif á allt daglegt líf og umhverfi einstaklingsins sem við röskunina glímir svo sem starfshæfni, félagshæfni, námsgetu, skipulag og stjórnun. Samkvæmt rannsóknum er talið að stærstu áhrifaþættir ADHD á orsökum séu arfgengi (60-80% er talið erfðatengt). Í mars síðastliðnum gaf Landlæknisembættið út klínískar leiðbeiningar um vinnulag, greiningu og meðferð við ADHD en þær má nálgast hér: http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item14259/version5/ADHD-7.%20mars%202012.pdf. Þar hefur verið safnað saman á kerfisbundinn hátt þekkingu um þær aðferðir sem hafa sýnt að virki best við greiningu og meðferð við ADHD. Tilgangur leiðbeininganna er að auðvelda starfsfólki í heilbrigðisþjónustu og almenningi um ákvarðanatöku við tilteknar aðstæður. Í klínísku leiðbeiningunum kemur einnig fram að upphafsmeðferð með lyfjum verði að vera í höndum barna- og unglingageðlækna eða barnalækna með sérþekkingu á þroskaröskunum. Sálfélagsleg meðferð breytir ekki starfsemi heilans sem er undirrót vandans í ADHD né heldur kjarnaeinkennum en hún getur engu að síður dregið úr og létt ýmsan þann vanda sem oft fylgir ADHD. Klínísku leiðbeiningarnar mæla með fræðslu og þjálfun í atferlismótandi aðferðum fyrir foreldra og aðra þá sem koma að umönnun barna með ADHD. Einnig er fjallað um hugræna atferlismeðferð (HAM) fyrir börn með ADHD en reynsla af notkun hennar er þó enn á rannsóknarstigi. Í greininni „Flókið að greina ADHD“ og einnig birtist á Mbl.is 9. ágúst sl. er haft eftir Ólafi Ó. Guðmundssyni yfirlækni á Barna- og unglingageðdeild LSH að flókið geti verið að greina ADHD þar sem greiningin byggir á þroskasögu barnsins, ítarlegri upplýsingaöflun, skoðun á barninu og útfyllingu á matslistum. Landlæknisembættið bendir því réttilega á að sérfræðingar í geðlækningum barna og unglinga, barnataugalæknar, barnalæknar með sérhæfingu í þroskaröskunum barna og klínískir sálfræðingar skulu annast greiningarvinnuna. Því er ljóst að miklar kröfur eru gerðar til menntunar og sérþekkingar greiningaraðila þannig að hver sem er geti ekki tekið að sér greiningu með því að titla sig sem meðferðaraðila eða sérfræðing. Í kjölfar greinaskrifa á Mbl.is þar sem því er haldið fram að ranglega sé verið að greina börn með ADHD sem þjást í raun af áfallastreituröskun segir Drífa Björk Guðmundsdóttir, doktor í klínískri sálfræði: „Með þá þekkingu sem ég hef á áfallastreitu bæði fullorðinna og barna finnst mér þetta nú ansi stór og að mörgu leiti hreinlega röng fullyrðing. Frumskilyrði þess að maður greinist með áfallastreitu er að maður hafi upplifað eða orðið vitni að einhverjum atburði sem fól í sér ógn við líf eða limi manns sjálfs eða annarra og að maður hafi upplifað yfirþyrmandi ótta og hjálparleysi þegar atburðurinn átti sér stað! Ég hef aldrei heyrt að áfall sem foreldri hafi upplifað jafnvel áður en barn fæðist yfirfærist yfir á barnið. Hins vegar geta börn verið kvíðin og hrædd ef foreldrarnir eru með áfallastreituröskun og geta ekki sinnt foreldrahlutverkinu sem skyldi af þeim sökum. Þótt óróleiki og einbeitingarskortur séu einkenni þunglyndis, kvíða og áfallastreitu eru nú yfirleitt önnur einkenni sem eru ríkjandi í áfallastreitu og sem ekki eru til staðar í sama mæli í kvíða, þunglyndi og ADHD, s.s. það að endurupplifa áfallið aftur og aftur hvort sem er í gegnum leik, teikningar, martraðir eða annað og forðast aðstæður sem minnt getur á áfallið. Einkenni úr öllum þrem einkennaflokkum: endurupplifun, forðun og aukin árvekni verða að vera til staðar til að hægt sé að greina barn/fullorðinn með áfallastreitu auk fyrrnefnds frumskilyrðis. Hér mætti fara aðeins hægar í fullyrðingarnar þótt vissulega sé það rétt að áfallasaga þurfi að fá meira vægi í greiningum barna og unglinga almennt“. Drífa Björk sérhæfði sig í áfallastreitu í meistara- og doktorsnámi sínu við Háskólann í Árósum, þar sem hún kenndi m.a. einn áfanga um efnið og skrifaði ítarlega samantekt á rannsóknarniðurstöðum síðustu ára á áfallastreitu barna sem var gefin út árið 2006. Hún hefur einnig starfað við greiningar barna með taugaraskanir, þ.á.m. ADHD, á Barna- og Unglinga-geðdeildinni í Kolding í Danmörku. Nú er ekki ætlun okkar af hálfu ADHD samtakanna að fullyrða að áföll geti ekki haft áhrif á ADHD einkenni einstaklinga, en vanda þarf til umfjöllunar af þessu tagi og varast að koma fram með alhæfingar. Slík umræða getur skaðað málstað einstaklinga með ADHD sem oftar en ekki þurfa að berjast fyrir skilningi og stuðningi. Slík umræða er ekki til þess fallin að auka á skilning og stuðning innan samfélagsins. Björk Þórarinsdóttir formaður ADHD samtakanna Elín H. Hinriksdóttir varaformaður ADHD samtakanna

Hætti að flýja sjálfan sig og fann frelsið

„Sumir valda þessu hlutverki mjög vel en það gerði ég ekki,“ segir hann þegar hann lítur nærri tvo áratugi aftur. „Ég er ofur virkur og hefði líklegast verið greindur ofvirkur með athyglisbrest ungur í dag. Svo við þessar aðstæður fór hausinn á yfirsnúning,“ segir hann.

Skrifstofan fer í sumarfrí frá og með 16. júlí til og með 10. ágúst

Öryrkjabandalag Íslands krefst ógildingar forsetakosninganna 30. júní 2012

Líkamlega fatlaðir sem þurftu aðstoða við að kjósa fengu ekki að nýta sína persónulegu aðstoðarmenn.

Tengsl milli einkunna og lyfjameðferðar við ADHD

Frétt tekin af mbl. is í dag sem segir frá doktorsrannsókn Helgu Zoëga.

Skrifstofan er lokuð í dag

vegna verkefnavinnu og jarðafarar

Eurovisionpottur rataði til ADHD samtakanna

Þórhallur Ólafsson og Kristján Pétursson færðu ADHD samtökunum Eurovisionpottinn sem þeir unnu.

ADHD samtökin á Akureyri 12. júní

Kynningarfundur um ADHD og samtökin fyrir fagfólk og alla þá sem starfa með börnum og ungmennum með ADHD. Þá verður einnig boðið upp á spjallfund fyrir foreldra.

Spjallfundur fyrir ungmenni og fullorðna í kvöld kl. 20

Allir velkomnir, kaffi og kósý sem kostar ekkert

Þökkum mæðgunum Írisi Dögg og Anítu von fyrir stuðninginn

Þær söfnuðu 31.000 krónum í fjölskylduhlaupi 12. maí síðastliðinn