Loka áminning um námskeið í Tölvuleikjagerð og Minecraft 12 til 21 júní

Síðustu forvöð að skrá sig á námskeið í Tölvuleikjagerð og Minecraft fyrir börn 7-10 ára ADHD samtökin í samstarfi við Skema í HR bjóða upp á námskeið í Tölvuleikjagerð og Minecraft í sumar. Skema stendur fyrir fjölbreyttum tækninámskeiðum og vinnur auk þess að því markmiði að kennsla í forritun verði í boði í grunn- og framhaldsskólum landsins. Þetta er fyrsta námskeiðið sem ADHD samtökin og Skema bjóða uppá saman. Námskeiðið er tvískipt. Annars vegar verður tölvuleikjagerð í Scratch og hins vegar sköpun í Minecraft. Þátttakendur fá að kynnast Scratch forritunarumhverfinu og læra að skapa, forrita og hanna sína eigin tölvuleiki. Scratch er sérsniðið að byrjendum í forritun en þar er notast við sjónrænt forritunarmál sem byggir á litríkum skipanakubbum. Þátttakendur öðlast grunnþekkingu á forritun, stafrænni hönnun og framkvæmd eigin hugmynda. Minecraft er vinsæll tölvuleikur þar sem eina takmarkið er eigið hugmyndaflug. Þátttakendur fá að læra grunninn í leiknum, ýmis brögð og brellur og vinna saman við að byggja upp samfélag með öðrum. Þátttakendur spila í sama heimi og geta unnið saman við verkefnavinnu. Námskeiðið verður haldið á Háaleitisbraut 13, 4.hæð í húsnæði ADHD samtakanna. Kennsla fer fram í tvær vikur frá 12. júní til 21. júní, á mánudögum og miðvikudögum frá kl.10:00-12:30. Létt hressing í boði. Áhersla verður lögð á að læra nýja hluti, hreyfingu, sköpun, teymisvinnu og fjör! Nánari upplýsingar og skráning Hér: https://www.adhd.is/is/namskeid/tolvuleikjagerd-og-minecraft-skema-hr-og-adhd-samtokin

Rafíþróttir - sumarnámskeið í júní

ADHD samtökin og Rafíþróttadeild Fylkis standa fyrir stuttu námskeiði í Rafíþróttum fyrir 10-13 ára börn, stelpur og stráka með ADHD. Æfingatímabilið er frá 12. júní - 22. júní, átta skipti alls. Æfingar fara fram fjórum sinnum í viku og eru æfingarnar í 90 mínútur í senn. Æfingar eru frá kl. 17:30 - 19:00. Á æfingum hjá Rafíþróttadeild Fylkis er lögð áhersla á jákvæða tölvuleikjaspilun, líkamlega og andlega heilsu og liðsheild. Iðkendur hita upp og stunda líkamlegar hreyfingu, læra heilbrigða spilunarhætti og vinna saman sem lið. Fylkir sér fyrir öllum æfingatækjum, leikjum og aðgöngum en þátttakendum er velkomið að spila aðra leiki eða skrá sig inn á sína aðganga. Hámark eru 10 í hverjum æfingahóp. Námskeiðin fara fram í rafíþrótta aðstöðu Fylkis, Norðlingabraut 12. Við hvetjum forráðamenn til þess að vera meðvitaðir um aldursviðmið PEGI. Skráning á æfingar er á ábyrgð forráðamanna og við skráningu er forráðamaður að senda samþykki sitt við því að iðkandinn spili þann leik sem hann hefur verið skráð á æfingar fyrir.

Fræðslufundur Suðurnes - Sumarfrí og ADHD

Fræðslufundur um ADHD og sumarfrí í kvöld, 10 maí kl. 20:00 í Akurskóla, Tjarnabraut 5, 260 Reykjanesbæ. Öll velkomin! Sumarfríin eru framundan, dagskrá skólanna að tæmast og við tekur sól sumar og taumlaus gleði... eða hvað? Þó sumarfríin séu og eigi að vera tími fjölskyldusamveru og fjölbreyttra skemmtilegra viðburða, fylgja sumrinu einnig nýjar og fjölbreyttar áskoranir, þar sem rútínan riðlast og við tekur óvissa. Hjá börnum með ADHD og fullorðnum, getur þessi tími valdið mikilli streitu og vanlíðan ef ekki tekst vel til. Á fundinum mun Dr. Drífa Björk Guðmundsóttir, sálfræðingur fara yfir helstu áskoranir þessa mikilvæga tíma fjölskyldunnar, benda á hagnýt ráð til lausnar og leiða umræður.

Fræðslufundur Egilsstöðum - ADHD og lyf

Reglulega kemur upp umræða um lyfjanotkun tengda ADHD, sú umræða er því miður oft byggð á takmörkuðum og7eða röngum upplýsingum. Ennfremur skortir marga upplýsingar til þess að greina hvort ADHD lyf eigi við þau sjálf í þeirra aðstæðum. Á fræðslufundinum mun Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna fara yfir virkni helstu lyfja sem eru notuð vegna ADHD, ræða um mögulegar aukaverkanir og reyna að svara helstu spurningum sem brenna á vörum fundargestum. Fundurinn fer fram í fyrirlestraraðstöðu Menntaskólans á Egilsstöðum klukkan 20:00. og er opinn öllum. Hægt er að ganga í ADHD samtökin hér: https://www.adhd.is/is/styrkja/gerast-felagsmadur-adhd Verið velkomin á fræðslufundinn!

ADHD samtökin sjá um fræðslu tíundu bekkinga á Suðurnesjunum

Verkefnið Velferðarnet Suðurnesja hefur gert samning við ADHD samtökin og býður öllum grunnskólum á Suðurnesjum fræðslu fyrir nemendur í 10. bekk. ADHD og allt hitt er yfirskrift fræðslunnar sem leitast við að útskýra hvers vegna þeir sem eru með ADHD glíma við áskoranir í námi og daglegu lífi. Það er mikilvægt að geta sýnt skilning og nýtt sér styrkleika sína til að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Jóna Kristín Gunnarsdóttir grunnskólakennari og hegðunarráðgjafi sér um fræðsluna fyrir hönd ADHD samtakanna. Verkefnið hófst í mars og viðbrögðin verið gríðarlega góð. Í framhaldinu verður svo boðið uppá fræðslu fyrir foreldra um unglinga og ADHD. Hægt er að ganga í ADHD samtökin hér: https://www.adhd.is/is/styrkja/gerast-felagsmadur-adhd

Aðalfundur ADHD samtakanna árið 2023

Aðalfundur ADHD samtakanna fór fram miðvikudaginn 19. apríl 2023 í húsakynnum félagsins að Háaleitisbraut 13. Á fundinum var kjörið í stjórn samkvæmt lögum samtakanna, ársreikningar vegna 2022 afgreiddir og ályktað um brýnustu verkefnin fram undan í geðheilbrigðismálum. Varaformaður ADHD samtakanna, Gyða Haraldsdóttir gerði grein fyrir skýrslu stjórnar fyrir árið 2022 í fjarveru formanns og framkvæmdastjórinn, Hrannar Björn Arnarsson gerði grein fyrir ársreiknings félagsins. Árið 2022 var nokkuð tvískipt – fyrri hluti ársins var um margt litaður af takmarkandi þáttum COVID hvað fundahald varðar, en þegar leið á vorið og restina af árinu færðist starfsemin í eðlilegra horf með líflegu viðburðahaldi og starfsemi um allt land. Áframhaldandi vöxtur einkenndi starfsemi samtakanna á árinu. Félagsmönnum fjölgaði úr 3616 í 4086 eða um 13%. Ein skráning gildir fyrir hverja fjölskyldu en bak við þá tölu reynast yfirleitt mun fleiri þar sem ekki er óalgengt að aðrir fjölskyldumeðlimir glími einnig við röskunina. Stóraukið líf færðist í starfsemi útibúanna, námskeiðahald og fræðslustarf samtakanna og mikil áhersla var lögð á baráttuna við lyfjafordóma og fyrir bættri og aukinni þjónustu hins opinbera við greiningar og meðferð vegna ADHD. Samþykkt var að árgjald ADHD samtakanna fyrir næsta starfsár yrði óbreytt, kr. 3650,- eða 10 kr fyrir hvern dag ársins og verða kröfur vegna árgjaldsins stofnaðar í heimabanka félagsfólks. Árgjaldið mun áfram veita umtalsverðan afslátt af námskeiðum samtakanna, af vörum í vefverslun ofl. Í samræmi við lög samtakanna var kjörið í helming stjórnarsæta, sæti formanns, varaformanns eins sætis í aðalstjórn og eitt sæti varamanns, til ársins 2025, en stjórn ADHD samtakanna skipa sjö aðalmenn og tveir til vara. Stjórnin er nú þannig skipuð: Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður (kosin til aðalfundar 2025) Gyða Haraldsdóttir, varaformaður (kosinn til aðalfundar 2025) Elín Hrefna Garðarsdóttir, gjaldkeri (kosin til aðalfundar 2024) Tryggvi Axelsson, ritari (kosin til aðalfundar 2024) Sigrún Jónsdóttir, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2024) Bóas Valdórsson, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2025) Ása Ingibergsdóttir, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2024) Varamenn: Björn S.. Traustason, (kosin til aðalfundar 2024) Bergþór Heimir Þórðarson, (kosin til aðalfundar 2025) Nefang stjórnar er: stjorn@adhd.is Ályktun aðalfundar ADHD samtakanna, 19. apríl 2023. Á þessu ári fagna ADHD samtökin 35 ára starfsafmæli sínu undir yfirskriftinni Betra líf með ADHD í 35 ár. Á þessum 35 árum hafa samtökin vaxið og dafnað og í dag eru rúmlega 4100 fjölskyldur skráðar í samtökin. Hvergi í heiminum er stærra hlutfall landsmanna virkt í hagsmunasamtökum fólks með ADHD og mjög fá samtök hafa fleiri félagsmenn almennt. Samtökin geta litið afar stolt yfir farinn veg, enda hafa lífsskilyrði fólks með ADHD tekið stakkaskiptum á starfstíma samtakanna, fordómar vikið fyrir þekkingu og stuðningur og skilningur aukist í samfélaginu á flestum sviðum. En betur má ef duga skal og enn eru mörg brýn verkefni framundan. Barátta ADHD samtakanna á liðnum árum hefur skilað því að allt þjónustukerfi hins opinbera við greiningar og meðferð á ADHD var tekið til endurskoðunar undir lok árs 2021. Þeirri endurskoðun fylgdu fögur fyrirheit um styttingu biðlista og aukinn meðferðarstuðning og hefur liðið ár mikið farið í að fylgja þessum breytingum og fögru fyrirheitum eftir. Árangurinn hefur ekki verið sem skyldi og hafa biðlistar því miður ekkert styst. Þvert á móti hafa þeir lengst og biðtími sömuleiðis, bæði hjá fullorðnum og börnum. Nýtt ADHD teymi fyrir fullorðna hefur nokkuð haldið í horfinu, en vegna aukinnar eftirspurnar hefur biðtími eftir þjónustu enn ekki styst. Hjá nýrri Geðheilsumiðstöð barna, sem tók yfir starfsemi Þroska- og hegðunarstöðvar, hefur hinsvegar keyrt um þverbak og biðtími lengst verulega. Óhætt er að segja að nú er tími umþóttunar og undirbúnings liðinn og tími róttækra aðgerða runninn upp – og þó fyrr hefði verið! ADHD samtökin geta ekki sætt sig við að enn eitt árið líði án þess að verulega verði gefið í af hálfu hins opinbera í þjónustu við fólk með ADHD. Biðlistar í greiningar og meðferð vegna ADHD verða að styttast og biðtíminn að breytast úr þeim tveimur til þremur árum sem hann er í dag, í 4-8 mánuði að hámarki. Allt annað er í raun ólíðandi, miðað við þá þekkingu sem við höfum í dag um skaðsemi langs biðtíma og jákvæðan ávinning greiningar og meðferðar vegna ADHD. Aðalfundur ADHD samtakanna heitir á stjórnvöld að láta nú hendur standa fram úr ermum svo um munar. ADHD samtökin munu fylgjast með hverju skrefi á þeirri mikilvægu vegferð.

Ályktun aðalfundar ADHD samtakanna

Á þessu ári fagna ADHD samtökin 35 ára starfsafmæli sínu undir yfirskriftinni Betra líf með ADHD í 35 ár. Á þessum 35 árum hafa samtökin vaxið og dafnað og í dag eru rúmlega 4100 fjölskyldur skráðar í samtökin. Hvergi í heiminum er stærra hlutfall landsmanna virkt í hagsmunasamtökum fólks með ADHD og mjög fá samtök hafa fleiri félagsmenn almennt. Samtökin geta litið afar stolt yfir farinn veg, enda hafa lífsskilyrði fólks með ADHD tekið stakkaskiptum á starfstíma samtakanna, fordómar vikið fyrir þekkingu og stuðningur og skilningur aukist í samfélaginu á flestum sviðum. En betur má ef duga skal og enn eru mörg brýn verkefni framundan. Barátta ADHD samtakanna á liðnum árum hefur skilað því að allt þjónustukerfi hins opinbera við greiningar og meðferð á ADHD var tekið til endurskoðunar undir lok árs 2021. Þeirri endurskoðun fylgdu fögur fyrirheit um styttingu biðlista og aukinn meðferðarstuðning og hefur liðið ár mikið farið í að fylgja þessum breytingum og fögru fyrirheitum eftir. Árangurinn hefur ekki verið sem skyldi og hafa biðlistar því miður ekkert styst. Þvert á móti hafa þeir lengst og biðtími sömuleiðis, bæði hjá fullorðnum og börnum. Nýtt ADHD teymi fyrir fullorðna hefur nokkuð haldið í horfinu, en vegna aukinnar eftirspurnar hefur biðtími eftir þjónustu enn ekki styst. Hjá nýrri Geðheilsumiðstöð barna, sem tók yfir starfsemi Þroska- og hegðunarstöðvar, hefur hinsvegar keyrt um þverbak og biðtími lengst verulega. Óhætt er að segja að nú er tími umþóttunar og undirbúnings liðinn og tími róttækra aðgerða runninn upp – og þó fyrr hefði verið! ADHD samtökin geta ekki sætt sig við að enn eitt árið líði án þess að verulega verði gefið í af hálfu hins opinbera í þjónustu við fólk með ADHD. Biðlistar í greiningar og meðferð vegna ADHD verða að styttast og biðtíminn að breytast úr þeim tveimur til þremur árum sem hann er í dag, í 4-8 mánuði að hámarki. Allt annað er í raun ólíðandi, miðað við þá þekkingu sem við höfum í dag um skaðsemi langs biðtíma og jákvæðan ávinning greiningar og meðferðar vegna ADHD. Aðalfundur ADHD samtakanna heitir á stjórnvöld að láta nú hendur standa fram úr ermum svo um munar. ADHD samtökin munu fylgjast með hverju skrefi á þeirri mikilvægu vegferð. Aðalfundur ADHD samtakanna 19. apríl 2023

Afmælishátið ADHD samtakanna

Síðastliðinn fimmtudag héldu ADHD samtökin uppá 35 ára afmæli sitt með pompi og prakt í Gyllta salnum á Hótel Borg. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ávarpaði gesti og tónlistarmaðurinn Eyþór Ingi tróð upp. Grínarinn og ísgerðarkonan Anna Svava Knútsdóttir sá um að stýra viðburðinum með glæsibrag. Katrín Jakobsdóttir og Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna veittu síðan eftirtöldum aðilum heiðursviðurkenningu fyrir ómetanlegt framlag þeirra í þágu fólk með ADHD. Viðurkenninguna hlutu Matthías Kristiansen og Heidi Kristiansen, Ingibjörg Karlsdóttir, Elín Hoe Hinriksdóttir og Björk Þórarinsdóttir heitin. Ingibjörg Karlsdóttir tók á móti viðurkenningu Matthíasar og Heidi í fjarveru þeirra og Alexander Kristinsson tók á móti viðurkenningu fyrir hönd móður sinnar Bjarkar Þórarinsdóttur en öll voru þau í forystu samtakanna og bera mikla ábyrgð á velgengni þeirra í dag. Afmælisdagurinn er þó aðeins hluti af stærri dagskrá á þessu afmælisári en í sumar munu samtökin bjóða félagsfólki til veislu í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum. Auk þess standa ADHD samtökin fyrir alþjóðlegri ráðstefnu 26. og 27. október undir yfirskriftinni „Betra líf með ADHD“. Fyrir Páska gáfu samtökin einnig út afmælisrit sem hægt er að nálgast hér. https://www.adhd.is/static/files/Frettabref/pdf/afmaelisrit.pdf Hér er hægt að skoða myndabanka frá viðburðinum: https://www.picdrop.com/ellephoenix/XuP44nPxBr

Vertu Snillingur!

Vertu Snillingur! Í tilefni af 35 ára afmæli ADHD samtakanna fá allir nýjir Snillingar stuttermabol að gjöf með mynd sem hönnuð er af Hjalta Parelíus myndlistarmanni fyrir ADHD samtökin. Skráðu þig núna og gerum ADHD samtökin enn öflugari á 35 ára afmælisárinu!

ADHD samtökin 35 ára!

Þann 7. apríl verða 35 ár liðin frá stofnun ADHD samtakanna. ADHD samtökin munu með ýmsum hætti fagna tímamótunum undir yfirskriftinni Betra líf með ADHD í 35 ár. Næstu daga mun afmælisriti ADHD samtakanna verða dreift um allt land, stútfullu af fróðleik um starfsemi samtakanna ásamt áhugaverðum viðtölum við fjölda einstaklinga. Um leið og við óskum þér og þínum til hamingju með 35 ára starfsafmælið gefum við formanni samtakanna, Vilhjálmi Hjálmarssyni orðið...