Staðnám/fjarnám: Fræðslunámskeið fyrir foreldra barna 13-18 ára með ADHD

SKRÁNING STENDUR YFIR á hið sívinsæla fræðslunámskeið fyrir aðstandendur 13-18 ára barna með ADHD sem haldið verður í húsnæði ADHD samtakanna, Háaleitisbraut 13 í Reykjavík laugardagana 17. apríl og 24. apríl 2021 (sjá skipulag hér fyrir neðan). Á námskeiðinu er lögð áhersla á að þátttakendur öðlist góðan skilning á hvað ADHD er og fái einföld og hagnýt ráð við uppeldi unglinga með ADHD. Námskeiðið hentar því vel fyrir alla nána aðstandendur unglinga með ADHD, mömmur, pabba, fósturforeldra, stjúpforeldra, ömmur, afa og aðra nána. Það er mikill kostur ef nánir aðstandendur geta tekið þátt í námskeiðinu. Þannig verður fjölskylduheildin enn sterkari. Námskeiðið verður haldið í húsakynnum ADHD samtakanna að Háaleitisbraut 13, 4. hæð báða dagana. Hægt verður einnig að taka þátt í námskeiðinu í gegnum fjarfundarbúnar og er stofnaður lokaður hópur á Facebook í því tilliti. Því er því ekkert til fyrirstöðu að taka þá hvar á landinu sem þú býrð.

Samskipti foreldra og barna með ADHD - Spjallfundur í Reykjavík

ADHD samtökin bjóða upp á opinn spjallfund um samskipti foreldra og barna með ADHD miðvikudaginn 3. mars nk. kl. 20:30. Fundurinn verður haldinn í fundarsal ADHD samtakanna að Háaleitisbraut 13, 4.hæð og er ætlaður foreldrum/forráðamönnum barna og öðrum aðstandendum fólks með ADHD og öllu öðru áhugafólki um uppbyggileg og gagnleg samskipti i uppeldi barna. Sólveig Ásgrímsdóttir sálfræðingur hefur veg og vanda að spjallfundinum og mun hún koma víða við. Í þessum fyrirlestri mun Sólveig meðal annars koma inn á óhlýðnikeðjuna, um samstöðu foreldra, umbunarkerfi, uppbyggileg samtöl og samskipti, hvernig við getum dregið fram góða hegðun og mikið meira. Sólveig hefur lengi starfað innan málaflokksins en hún starfaði fyrst sem skólasálfræðingur og síðar sálfræðingur á BUGL og tók þátt í að byggja upp þjónustu við börn með ADHD þar. Tók síðar við starfi forstöðumanns og sálfræðings á Stuðlum en þangað komu margir unglingar með ADHD. Sólveig hefur lengi sinnt fræðslu á vegum ADHD samtakanna og situr nú í stjórn þeirra. Við mælum með þessum opna fyrirlestri, það er aldrei að vita nema að þú fáir góðar uppeldishugmyndir í kjölfarið!

ADHD og daglegar áskoranir - Spjallfundur í Eyjum

Við minnum á fræðsluna á spjallfundinum seinnipartinn í dag kl. 17:30. Fjölmennið og eigið notalega samverustund saman þar sem málefni ADHD verður í hávegum haft. Heitt á könnunni! ADHD Eyjar og Sigurlaug Vilbergsdóttir, þroskaþjálfi og einhverfuráðgjafi mun fjalla um ADHD og daglegar áskoranir og nefndir erindi sitt „Að vera sunnan við sig“ á spjallfundi sem haldinn verður í Eyjum fimmtudaginn 25. febrúar kl. 17:30 - 19:00. Verður fundurinn haldinn í fundarsalnum á flugvelli Vestmannaeyja (gengið er inn vestanmegin). Sigurlaug mun fjalla um hegðun og líðan einstaklinga og hvernig hún hefur áhrif allt daglegt líf. Álag getur birst við ýmsar aðstæður og við misjöfn tilefni. Aðlögunarfærni og þrautseigja hafa mikil áhrif á getu til að takast á við misjöfn verkefni í lífinu. Skipulag og fyrirsjáanleiki tryggja best það öryggi sem einstaklingur þarf til að ná árangri við dagleg verkefni. Einnig þarf hver og einn að nýta styrkleika sína og áhugasvið til að tapa aldrei gleðinni. Fjölmennum, fræðumst og skiptumst á reynslusögum og skoðunum um líf með ADHD. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir og heitt á könnunni!

ADHD og lyf - opinn spjallfundur á Egilsstöðum

ADHD Austurland halda opinn spjallfund á Egilsstöðum um ADHD og lyf, miðvikudaginn 24. febrúar kl. 20:00. Fundurinn er öllum opinn á meðan húsúm og sóttvarnarreglur leyfa og fer hann fram á Austurbrú. Mætum og bjóðum vinum - byggjum upp öflugt ADHD samfélag á Austurlandi.

Heillandi hugmyndir eða óþolandi þörf fyrir að gera hlutina öðruvísi?

Við minnum á spjallfundinn í kvöld kl. 20:30. Raunheimar / Netheimar - þú velur. ATH. Einungis 20 manns komast í hús vegna núgildandi sóttvarnarreglna. Vertu með! ADHD samtökin halda opinn spjallfund um ADHD og atvinnu en þá mun Aðalheiður Sigursveinsdóttir framkvæmdastjóri fjalla um styrkleika fólks með víðhygli (ADHD) sem eru fjölbreyttir og margslungnir. Í þessum fyrirlestri mun Aðalheiður ræða um birtingamyndir þessara styrkleika og nokkra lykla sem geta nýst bæði starfsmönnum og stjórnendum svo hæfnisþættir og styrkleikar tengdir ADHD fái notið sín enn betur á vinnustaðnum. Við mælum með þessum fyrirlestri, það er aldrei að vita nema að þú fáir góða hugmynd í kjölfarið.

Pop it - push up fiktvörur í miklu úrvali

Hinar geysi vinsælu pop it - push up fiktvörur eru nú loksins fáanlegar í vefverslun ADHD samtakanna. Mikið úrval forma og lita og verðið hvergi lægra fyrir skuldlausa félagsmenn ADHD samtakanna. Sendum um allt land.

TÍA - nýtt námskeið um Tómstundir, Íþróttir og ADHD

TÍA - Tómstundir, íþróttir og ADHD er nýtt námskeið ADHD samtakanna fyrir þjálfara, tómstundafulltrúa og aðra sem koma að skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi barna, með sérstakri áherslu á þátttöku barna með ADHD. Umsjónarmenn eru sérfræðingarnir Vanda Sigurgeirsdóttir, Jakob Frímann Þorsteinsson og Bóas Valdórsson. Skráning er hafin en námskeiðið verður haldið 3. og 23. mars nk.

Spjallfundur felllur niður - ADHD og nám

Spjallfundurinn um ADHD og nám, sem átti að vera í kvöld, miðvikudaginn 3. febrúar kl. 20:30 fellur því miður niður vegna veikinda. Við hittumst næst 17. febrúar á sama tíma og ræðum um ADHD og atvinnu.

ADHD og nám - Spjallfundur á Akureyri

28. janúar kl. 16:30-17:45 Grófinni, Hafnarstræti 95, 4. hæð Spjallfundur - ADHD og heimanám Jóna Kristín Gunnarsdóttir, kennari og stjórnarkona í ADHD samtökunum fer yfir helstu áskoranir sem nemendur með ADHD, kennarar og forráðamenn standa nú frammi fyrir. Samkomubann og raskanir á skólahaldi geta komið sérstaklega ílla við börn með ADHD og mikilvægt er að grípa til ráðstafana til að styðja þau í gegnum tímabilið. Ýmislegt er til ráða og mun Jóna Kristín miðla af reynslu sinni og svara spurningum eftir fremsta megni.

Betra líf með ADHD - opinn spjallfundur í Reykjavík

Betra líf með ADHD. ADHD samtökin bjóða upp á opinn spjallfund með ADHD markþjálfa um áskoranir daglegs lífs með ADHD og leiðir til að njóta þess, miðvikudaginn 20. janúar nk. kl. 20:30. Fundurinn verður í fundarsal samtakanna að Háaleitisbraut 13 - IV. hæð og er ætlaður fullorðnum með ADHD og öllu áhugafólki um betra líf með ADHD.