Nýr starfsmaður ADHD samtakanna

Sindri Freyr Ásgeirsson hefur verið ráðinn á skrifstofu ADHD samtakanna sem verkefnastjóri upplýsingamála. Hann er að ljúka námi í stjórnmálafræði og hefur á síðustu árum komið víða við. Sindri Freyr hefur í störfum sínum unnið við markaðs- og kynningamál og því mikill fengur fyrir samtökin að fá hann til starfa. Sindri Freyr mun sinna verkefnum er varða upplýsingamiðlum, kynningar- og markaðsmál ásamt því að hann mun sinna daglegum verkefnum á skrifstofunni. Við bjóðum Sindra Frey velkominn til starfa og hlökkum til samstarfsins!

Team ADHD - Hlaupum fyrir Betra líf með ADHD í 35 ár!

Skráning í Reykjavíkurmaraþonið er komin á fullt og öll getum við tekið þátt og safnað áheitum. Í tilefni af 35 ára afmæli ADHD samtakanna óskum við eftir þínum stuðningi og hlaupum fyrir Betra líf með ADHD í 35 ár! Öll sem hlaupa fyrir ADHD samtökin fá ókeypis hlaupabol að gjöf sem þakklætisvott - mikið úrval af flottum bolum í tilefni af 35 ára afmælinu! Vertu með í TEAM ADHD - Betra líf með ADHD í 35 ár!

Sumarhátíð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum 7. júní

Í tilefni 35 ára afmælisárs ADHD samtakanna bjóða samtökin öllum félagsmönnum á sumarhátíð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum þann 7. júní frá kl.16-20. Í boði verður skemmtileg dagsskrá og veitingar - ókeypis inn og í öll tæki fyrir félagsfólk ADHD samtakanna og fjölskyldur þeirra!

Sumarnámskeið í júní fyrir börn með ADHD

Í júní munu ADHD samtökin í fyrsta sinn standa fyrir sumarnámskeiðum fyrir börn með ADHD. Annarsvegar rafíþróttanámskeið fyrir 10-13 ára í samvinnu við rafíþróttadeild Fylkis og hinsvegar námskeið í tölvuleikjagerð og sköpun í Minecraft í samvinnu við Skema í HR, fyrir 7-10 ára. Bæði námskeiðin eru opin öllum kynjum og fá umsjónaraðilar sérstaka fræðslu um ADHD og tómstundastarf með börnum með ADHD. Fjölskyldur félagsfólks í ADHD samtökunum fá veglegan afslátt af þátttökugjaldi. Nánari upplýsingar

Fræðslufundur Eyjum - ADHD og parasambönd

25. maí kl. 20:00-21:00 Fræðslufundur í Eyjum - ADHD og parasambönd. Farið verður í birtingamyndir jákvæðra og neikvæðra samskipta í samböndum fólks með ADHD, sem og mikilvægi þekkingar á röskuninni, þá fyrir báða aðila í sambandinu. Skoðað verður hvernig hægt er að takast á við áskoranir með jákvæðum hætti til að bæta samskipti.

Fræðslufundur Selfossi - ADHD og sumarfrí

Við minnum á fræðslufundinn í kvöld klukkan 20:00. Sumarfríin eru framundan, dagskrá skólanna að tæmast og við tekur sól, sumar og taumlaus gleði....eða hvað? Þrátt fyrir að sumarfríin séu og eigi að vera tími fjölskyldusamveru og skemmtilegra viðburða fylgja sumrinu einnig nýjar og fjölbreyttar áskoranir. Rútínan riðlast og óvissa getur tekið völdin. Hjá börnum með ADHD og fullorðnum getur þessi tími valdið mikilli streitu og vanlíðan ef ekki tekst vel til. Á fundinum mun Dr. Drífa Björk Guðmundsdóttir, sálfræðingur fara yfir helstu áskoranir þessa mikilvæga tíma fjölskyldunnar, benda á hagnýt ráð til lausnar og leiða umræður. Fundurinn verður haldinn í Vallaskóla, Sólvöllum 2, 800 Selfoss, þann 25. maí kl. 20:00. ATH! Gengið er inn af Engjavegi. Skráðu þig á facebook viðburðinn og fáðu áminningu: https://fb.me/e/3DWWtwjYa Hér er tengill til að skrá sig í samtökin: https://www.adhd.is/is/styrkja/gerast-felagsmadur-adhd

Fræðslufundur í kvöld - Úlfatíminn

Við minnum á fræðslufundinn í kvöld klukkan 20:00. Hvaða foreldri kannast ekki við erfiðleikana og pirringinn sem skapast hjá börnum eftir að leikskóla lýkur og fram að háttatíma? Þetta er svokallaður úlfatími. Skapsveiflur, pirringur, hegðunarerfiðleikar og þessháttar eru ekki óalgengir hjá börnum á þessum tímapunkti og sérstaklega börnum með ADHD. Að versla í matinn, elda, borða, baða, bursta tennur, koma barninu í rúmið og svæfa er eilíf barátta. Þetta reynir á þolinmæðina og getur verið gríðarlega krefjandi tími. Hvernig er hægt að draga úr þessum árekstrum? Katrín Ruth Þorgeirsdóttir ráðgjafaþroskaþjálfi og hegðunarráðgjafi fer yfir nokkur góð ráð og aðferðir sem hægt er að nota til að létta heimilislífið og skapa jákvæðar samverustundir. Fundurinn fer fram í húsakynnum samtakanna Háaleitisbraut 13, á fjórðu hæð. Heitt á könnunni. Hægt er að skrá sig á viðburðinn hér til að fá áminningu um hann: https://fb.me/e/2dHbCfkdc Hér er tengill til að skrá sig í samtökin: https://www.adhd.is/is/styrkja/gerast-felagsmadur-adhd Verið velkomin á fræðslufundinn!

ADHD og náin sambönd - opinn fræðslufundur

ADHD og náin sambönd - opinn fræðslufundurinn í kvöld, þriðjudaginn 9. maí kl. 20:00 - 21.00 í húsakynnum ADHD samtakanna Háaleitisbraut 13 og í streymi á ADHD í beinni fyrir skráða meðlimi samtakanna. Sjáumst!

Loka áminning um námskeið í Tölvuleikjagerð og Minecraft 12 til 21 júní

Síðustu forvöð að skrá sig á námskeið í Tölvuleikjagerð og Minecraft fyrir börn 7-10 ára ADHD samtökin í samstarfi við Skema í HR bjóða upp á námskeið í Tölvuleikjagerð og Minecraft í sumar. Skema stendur fyrir fjölbreyttum tækninámskeiðum og vinnur auk þess að því markmiði að kennsla í forritun verði í boði í grunn- og framhaldsskólum landsins. Þetta er fyrsta námskeiðið sem ADHD samtökin og Skema bjóða uppá saman. Námskeiðið er tvískipt. Annars vegar verður tölvuleikjagerð í Scratch og hins vegar sköpun í Minecraft. Þátttakendur fá að kynnast Scratch forritunarumhverfinu og læra að skapa, forrita og hanna sína eigin tölvuleiki. Scratch er sérsniðið að byrjendum í forritun en þar er notast við sjónrænt forritunarmál sem byggir á litríkum skipanakubbum. Þátttakendur öðlast grunnþekkingu á forritun, stafrænni hönnun og framkvæmd eigin hugmynda. Minecraft er vinsæll tölvuleikur þar sem eina takmarkið er eigið hugmyndaflug. Þátttakendur fá að læra grunninn í leiknum, ýmis brögð og brellur og vinna saman við að byggja upp samfélag með öðrum. Þátttakendur spila í sama heimi og geta unnið saman við verkefnavinnu. Námskeiðið verður haldið á Háaleitisbraut 13, 4.hæð í húsnæði ADHD samtakanna. Kennsla fer fram í tvær vikur frá 12. júní til 21. júní, á mánudögum og miðvikudögum frá kl.10:00-12:30. Létt hressing í boði. Áhersla verður lögð á að læra nýja hluti, hreyfingu, sköpun, teymisvinnu og fjör! Nánari upplýsingar og skráning Hér: https://www.adhd.is/is/namskeid/tolvuleikjagerd-og-minecraft-skema-hr-og-adhd-samtokin

Rafíþróttir - sumarnámskeið í júní

ADHD samtökin og Rafíþróttadeild Fylkis standa fyrir stuttu námskeiði í Rafíþróttum fyrir 10-13 ára börn, stelpur og stráka með ADHD. Æfingatímabilið er frá 12. júní - 22. júní, átta skipti alls. Æfingar fara fram fjórum sinnum í viku og eru æfingarnar í 90 mínútur í senn. Æfingar eru frá kl. 17:30 - 19:00. Á æfingum hjá Rafíþróttadeild Fylkis er lögð áhersla á jákvæða tölvuleikjaspilun, líkamlega og andlega heilsu og liðsheild. Iðkendur hita upp og stunda líkamlegar hreyfingu, læra heilbrigða spilunarhætti og vinna saman sem lið. Fylkir sér fyrir öllum æfingatækjum, leikjum og aðgöngum en þátttakendum er velkomið að spila aðra leiki eða skrá sig inn á sína aðganga. Hámark eru 10 í hverjum æfingahóp. Námskeiðin fara fram í rafíþrótta aðstöðu Fylkis, Norðlingabraut 12. Við hvetjum forráðamenn til þess að vera meðvitaðir um aldursviðmið PEGI. Skráning á æfingar er á ábyrgð forráðamanna og við skráningu er forráðamaður að senda samþykki sitt við því að iðkandinn spili þann leik sem hann hefur verið skráð á æfingar fyrir.