Endurskinsmerkið 2015 komið í sölu

ADHD samtökin kynntu í byrjun viku nýtt endurskinsmerki en sala endurskinsmerkja er mikilvægur liður í vitundarmánuði ár hvert. Sem fyrr leggur Hugleikur Dagsson til teikningu á merkið og fór einkar vel á því að kynna merki ársins 2015 á afmælisdegi listamannsins, 5.október. Merkin eru til sölu á skrifstofu ADHD samtakanna, á vefnum www.adhd.is og á öllum stöðvum N1.

Lög um félagasamtök verði samþykkt á haustþingi

Stjórn Almannaheilla, samtaka þriðja geirans, hvetur þingmenn til að afgreiða frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla nú á haustþingi til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Stjórn Almannaheilla samþykkti ályktun þessa efnis á fundi sínum 1. október og hefur ályktunin verið send öllum þingmönnum. ADHD samtökin eru eitt 26 aðildarfélaga Almannaheilla.

Spjallfundur fyrir foreldra og forráðamenn í kvöld

Við minnum á spjallfund fyrir foreldra og forráðamenn í kvöld. Yfirskriftin er ADHD, unglingar og fíkn. Sólveig Ásgrímsdóttir leiðir fundinn. Fundurinn verður að Háaleitisbraut 13 - 4.hæð og hefst klukkan 20:30 Allir velkomnir í kaffi og notalega stund án endurgjalds.

Leikskólar og ADHD - 25 ráð og verkfæri

ADHD samtökin hafa ráðist í útgáfu bókarinnar „Leikskólar og ADHD, 25 ráð og verkfæri“. Lengi hefur verið spurn eftir efni um börn með ADHD og leikskólann, sem hægt er að styðjast við í vinnu með börnum með ADHD. Í þeim tilgangi að mæta þörfinni var ráðist í gerð bókarinnar. "Halli Pollapönkari" Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, tók við fyrsta eintaki bókarinnar í morgun.

Málþing 30. október - ADHD og leikskólar

ADHD samtökin efna til málþings í Gamla Bíói, föstudaginn 30. október um leikskóla og ADHD. Málþingið er hluti af viðburðum í alþjóðlegum ADHD vitundarmánuði. Dagskráin er að taka á sig endanlega mynd og verður birt þegar hún liggur fyrir. Skráning er hafin á vef ADHD. Félagsmenn ADHD samtakanna greiða kr. 2.000, - en aðrir kr. 3.000,-. Inni í málþingsgjaldi eru veitingar og nýútkomin bók um leikskóla og ADHD.

Fræðsla og námskeið á Egilsstöðum

ADHD samtökin bjóða nú á haustdögum upp á fræðslu og námskeið á Egilsstöðum. Boðið verður up á GPS-sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir stelpur og stráka í 8. til 10. bekk og fræðslunámskeið og ráðgjöf fyrir fullorðna með ADHD. Skráning er hafin á vef samtakanna.

Einstakt verkfæri fyrir fólk með ADHD og einhverfu

Á dögunum opnaði vefsíðan www.egerunik.is. Síðan er einstakt verkfæri fyrir fólk með ADHD og einhverfu og gerir því kleift, eða foreldrum barna með ADHD eða einhverfu, að útbúa persónulegt fræðsluefni um einstaklinginn. Ekkert slíkt verkfæri hefur verið til en mikil þörf verið á. Hugmyndasmiður og eigandi síðunnar er Aðalheiður Sigurðardóttir.

Styrkleikar ADHD - Fyrsti spjallfundur haustsins

Fyrsti spjallfundur haustsins verður annað kvöld, miðvikudag 16. september. Fundurinn er ætlaður fullorðnum með ADHD og er umfjöllunarefnið styrkleikar ADHD. Ásta Sóley Sigurðardóttir leiðir fundinn sem verður að Háaleitisbraut 13 - 4.hæð og hefst klukkan 20:30. Allir eru velkomnir í kaffi og notalega stund, án endurgjalds.

Hvernig er það að vera með ADHD?

Í þættinum Fólk með Sirrý á Hringbraut síðastliðið miðvikudagskvöld var rætt við fólk á fullorðinsárum sem hefur lifað með athyglisbresti sínum frá því það man eftir sér, en opinber umræða um hegðunaráráttu af þessu tagi var varla til í þeirra ungdæmi. Stefán Karl Stefánsson leikari lýsti því með tilþrifum hvernig er að glíma við athyglisbrestinn, sem hann segir að geti oft og tíðum verið einmanalegt en hann eigi það til að loka sig af inni á heimilinu með konu og börnum og þrá það eitt að enginn trufli hann í örygginu innan dyra. Þá fylgi hans ADHD oft þunglyndi, félagsleg einangrun og skilningsleysi samfélagsins.

Hvatningarverðlaun ÖBÍ 2015

Óskað er eftir tilnefningum til hvatningarverðlauna ÖBÍ 2015 fyrir 15. september nk. Verðlaunin eru veitt þeim sem þykja hafa skarað fram úr og endurspeglað áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu og stuðlað að einu samfélagi fyrir alla.